Snjalltækjanotkun barna og unglinga

Samtaka, Svæðisráð foreldra í grunnskólum Akureyrar, mun á næstu mánuðum standa fyrir fræðslu í samstarfi við SAFT og Heimili og skóla. Fyrstu fyrirlestrarnir, sem haldnir eru í janúar, fjalla um snjallsíma og hætturnar sem af þeim geta stafað.

Fulltrúar frá SAFT og Heimili og skóla munu heimsækja alla 6. bekki á Akureyri og fræða nemendur um málefnið. Fimmtudaginn, 29. janúar, verður síðan málþing í Hofi þar sem foreldrum og öðrum aðstandendum er boðið að hlusta á fræðslu svipaða þeirri sem nemendurnir fá. Málþingið hefst kl. 20 og er öllum opið.

Í fræðslunni er farið yfir einkenni tælingarmála og hvað beri að varast í samskiptum við ókunnuga á netinu, hvað sé hægt að gera ef grunur vaknar um tilraun til tælingar og hvert sé hægt að leita. Eins fá börnin fræðslu um alvarleika rafræns eineltis og óvarlegra samskipta og myndbirtinga á netinu, farið verður yfir slæm áhrif ofnotkunar á tölvum og neti auk þess sem hvatt er til jákvæðrar og ábyrgrar netnotkunar. Fræðslan er lifandi og hvatt er til þátttöku nemenda. Stuðst er við stutt myndbönd sem lýsa ýmsum klemmum sem komið geta upp með óvarlegri netnotkun.

Nánar um dagskrána á meðfylgjandi mynd.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan