Eitt mest spennandi skíðasvæði heims

Í síðustu viku birti vefurinn Unofficial Networks sem er hluti af USA Today keðjunni, val sitt á 12 flottustu eða mest spennandi (exotic) skíðasvæðum heims og á þeim lista er að finna Hlíðarfjall ofan Akureyrar. Skemmst er að minnast þess að fyrr á árinu valdi ferðamannavefurinn Lonely Planet Akureyri sem besta áfangastaðinn í Evrópu árið 2015 þannig að ljóst er að vinsældir bæjarins aukast nú hratt hvort heldur sem er að sumri eða vetri. Listann frá Unofficial Networks má sjá HÉR.

Nú er að kólna ofurlítið á Norðurlandi og Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hliðarfjalli segir að menn séu í óða önn að gera sig klára fyrir veturinn. „Mér sýnist vera kuldatíð í kortunum og vonandi getum við bráðum farið að skjóta glænýjum snjó úr snjóbyssunum okkar. Síðasti vetur var nokkuð umhleypingasamur og ekki sá allra besti fyrir okkur hér í Hlíðarfjalli en mig dreymdi nokkrar feitar rjúpur í nótt sem kvað vera fyrir miklum snjó og blíðu veðri,“ sagði Guðmundur Karl.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan