Eiríkur Björn kominn til starfa

Eiríkur Björn Björgvinsson hóf í dag störf sem bæjarstjóri á Akureyri og hans fyrsta verk var að sitja bæjarráðsfund í morgun. Á fundinum fékk Eiríkur Björn tækifæri til þess að hitta bæjarfulltrúa og þar var einnig gengið frá formlegri ráðningu hans sem bæjarstjóra. Að fundi loknum gekk Eiríkur Björn á milli deilda og heilsaði upp á starfsfólk bæjarins.

Eiríkur Björn Björgvinsson fæddist í Reykjavík 6. september 1966. Hann varð stúdent frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla árið 1987, lauk íþróttakennaraprófi á grunn- og framhaldsskólastigi frá Íþróttakennaraskóla Íslands árið 1990 og diplómu frá Íþróttaháskólanum í Köln árið 1994 auk diplómaprófs í stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands árið 2000.

Eiríkur Björn var æskulýðs- og íþróttafulltrúi Egilsstaðabæjar 1994-1996, íþrótta- og tómstundafulltrúi Akureyrarbæjar 1996-2002 og bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði 2002-2010. Eiginkona hans er Alma Jóhanna Árnadóttir, fædd 29. janúar 1969 á Húsavík. Hún er grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri. Þau eiga þrjá syni: Árna Björn, 13 ára; Birni Eiðar, 2 ára og Hákon Bjarnar, 6 mánaða.

Að sögn Eiríks Björns var dagurinn mjög ánægjulegur. ?Fyrsti dagurinn í nýju starfi er alltaf rólegur og í dag hef ég kynnst mörgu góðu starfsfólki sem ég hlakka til að vinna með. Þrátt fyrir að öll sveitarfélög séu nú að ganga í gegnum erfiða tíma eru að mínu mati mörg tækifæri fyrir Akureyri. Hér er byggt á góðum grunni, enda hefur verið unnin mjög góð vinna hjá bænum á undanförnum árum og því er ástæða til bjartsýni,? segir Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri.

eirikurbjorn

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan