Ein með öllu nálgast

Páll Óskar Hjálmtýsson.
Páll Óskar Hjálmtýsson.

Fimm stórir útitónleikar verða á Akureyri um helgina þegar fjölskylduhátíðin Ein með öllu stendur yfir. Mikið líf verður um allan bæ og nú er veðurspáin stöðugt að skána. Í miðbænum má meðal annars skella sér í tívolí, vatnabolta, litbolta, skoða lifandi listasýningu og upplifa ósvikna útimarkaðsstemningu í miðbænum.

Dagskrárliðir sem náð hafa miklum vinsældum og hafa fest sig í sessi á hátíðinni eru meðal annars Fimmtudagsfílingur í göngugötunni með N4, kirkjutröppuhlaupið, góðgerðaruppboð á bollakökum í Lystigarðinum (Mömmur og muffins), hið eina sanna Dynheimaball, Leikhópurinn Lotta, Ævintýraland að Hömrum, siglingar á pollinum þar á meðal sigling með Húna II, tívolí, litbolti, söngkeppni unga fólksins og ýmislegt fleira.

Ekki má heldur gleyma sparitónleikunum og flugeldasýningunni á Samkomuhúsflötinni á sunnudagskvöldinu þar sem undanfarin ár hafa verið á milli 15 og 20 þúsund gestir. Að venju verður tónlistin veigamikill þáttur í Einni með öllu og þeir sem troða upp á Akureyri um helgina eru til að mynda Páll Óskar, Eyþór Ingi, María Ólafs, Dúndurfréttir, Hreimur & Made in sveitin, Ljótu hálfvitarnir, Johnny And The Rest, Heimir Ingimars, AmabAdamA, Steindi Jr, Rúnar Eff, HBI Vocalist, Bent, Úlfur Úlfur og Sveppi og Villi.

Í ár er mælst til þess að bæjarbúar geri umhverfið rautt í stíl við hjörtun sem hafa sett svip sinn á bæinn síðustu árin. Því eru rauðar seríur, rautt skraut eða eitthvað rautt og fallegt það sem á við á Akureyri um Verslunarmannahelgina. Veitt verða verðlaun fyrir best skreyttu götuna. Fólk er hvatt til þess að deila myndum á samfélagsmiðlum og merkja þær #rauttAK. Reglurnar eru einfaldar; sú mynd sem er merkt #rauttAK og með götuheiti með flest "like" vinnur 100.000 kr. grillkjötspakka frá Goða.

Eins og áður er gert ráð fyrir þúsundum gesta á Akureyri sem leggja leið sína þangað til að gleðjast og skemmta sér með Akureyringum. UMFÍ heldur unglingalandsmót sitt á sama tíma í bænum og aðstandendur Einnar með öllu eiga gott samstarf við UMFÍ um að allt fari sem best fram.

Dagskrá hátíðarinnar er að finna á einmedollu.is.

Facebook síða Einnar með öllu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan