Bæjarstjórn samþykkir bókun um samgönguáætlun og orkumál

Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Bæjarstjórn Akureyrar gerði á fundi sínum í gær alvarlegar athugasemdir við frumvarp til fjárlaga 2017 og furðar sig á því að þar sé ekki tekið tillit til nýrrar samgönguáætlunar. Einnig fjallaði bæjarstjórn um stöðu orkumála í Eyjafirði en að öllu óbreyttu gæti skapast neyðarástand á því sviði á næstu árum.

Bókunin um samgönguáætlunina er svohljóðandi:

"Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp til fjárlaga 2017 sem nú liggur fyrir Alþingi. Það vekur furðu að í frumvarpinu er ekki tekið tillit til nýrrar samgönguáætlunar sem samþykkt var samhljóða á Alþingi 12. október sl. 

Af því leiðir að ekki er gert ráð fyrir fjármagni frá ríkinu til kaupa á nýjum hafnsögubáti fyrir Hafnasamlag Norðurlands, þrátt fyrir að nú liggi fyrir tilboð í smíði bátsins sem búið er að samþykkja og bíður undirritunar. Ekki er heldur gert ráð fyrir fjármagni til að ljúka gerð Dettifossvegar sem allir eru sammála um að sé lykilframkvæmd í uppbyggingu innviða fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. Þá er heldur ekki gert ráð fyrir fjármagni til að ljúka gerð flughlaðs við Akureyrarflugvöll sem er mikilvægt verkefni vegna flugöryggis yfir Íslandi og atvinnuuppbyggingar á Akureyri.

Það er algjörlega óviðunandi að ekki sé staðið við fyrri ákvarðanir Alþingis um að fjármagna þessar framkvæmdir í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga 2017. Hér er um að ræða verkefni sem nú þegar er byrjað á og langt komin í tilboðsferli og algjörlega óásættanlegt að ekki sé tekið tillit til í frumvarpinu."

Bæjarstjórn samþykkti bókunina með 11 samhljóða atkvæðum.

Einnig var samþykkt bókun um stöðu orkumála á Akureyri sem fjallar um mikilvægi þess að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norðausturlandi, auka afhendingaröryggi og styðja þannig eðlilegan vöxt atvinnulífs. Þar segir:

"Ljóst er að nú þegar er ástand þessara mála orðið mjög alvarlegt í Eyjafirði og ef ekkert verður að gert næstu árin skapast neyðarástand á svæðinu miðað við þá uppbyggingu sem nú á sér stað. Mikilvægt er í þessu sambandi að vinna að krafti að uppbyggingu Hólasandslínu 3 sem og Blöndulínu 3, þrátt fyrir að sú lína hafi verið sett tímabundið í bið í nýrri kerfisáætlun Landsnets. Jafnframt leggur bæjarstjórn áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélög á Norðurlandi hagi skipulagsvinnu sinni þannig að hægt verði að vinna að framþróun framkvæmda við þessar línulagnir. Akureyrarkaupstaður mun við endurskoðun aðalskipulags sem nú er í gangi kappkosta að eiga gott samstarf við Landsnet um leiðir fyrir raflínur í gegnum bæjarlandið og hvetur stofnunina til að leggja sig fram við að ná sátt um lagningu línanna við þá aðila sem að málinu koma í öðrum sveitarfélögum með faglegum undirbúningi, málefnalegri samræðu og með því að taka mið af ólíkum hagsmunum, sjónarmiðum og verðmætamati."

Bókunin var samþykkt samhljóða.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan