Bæjarhátíð sem hressir og bætir

Frá Friðarvökunni. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Frá Friðarvökunni. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Akureyrarvaka fór fram um helgina í blíðskaparveðri, allt að 20 gráðu hita. Mikill mannfjöldi tók þátt í þessari afmælishátíð kaupstaðarins og var einkennandi hversu margir bæjarbúar lögðu sitt af mörkum, fyrir utan allt listafólkið sem lét ljós sitt skína.

Hápunktur hátíðarhaldanna var á laugardagskvöld þegar hljómsveitin Amabadama hélt stóra útitónleika í Listagilinu og að þeim loknum var efnt til Friðarvöku þar sem um 1.000 útikerti voru tendruð í kirkjutröppunum til að efla samkennd og sýna samstöðu í verki. Við erum Akureyringar, Íslendingar og jarðarbúar, var yfirskrift Friðarvökunnar. Ágóði af sölu kertanna rennur til læknasamtakanna PMRS sem hlúa að stríðshrjáðum á Gaza svæðinu. Niðurstaðan er að bæjarhátíð á norðurhveli jarðar getur haft áhrif og gert heiminn örlítið betri en hann er í dag.

Akureyrarvaka var sett á föstudagskvöldið með Rökkurró í Lystigarðinum og ýmsum uppákomum í trjálundum hér og þar um garðinn. Fjöldi bæjarbúa lagði leið sína í garðinn til að njóta veðurblíðunnar og rölta um ljósum prýdda stígana. Að því loknu var haldið í Draugavöku í elsta hluta bæjarins. Drungaleg tónlist og draugaleg hljóð ásamt kynjaverum af öllum gerðum sköpuðu réttu sviðsmyndina. Þar tóku íbúar virkan þátt ásamt 100 sjálfboðaliðum sem brugðu sér í gervi drauga. 

Bæjarbúar létu ekki sitt eftir liggja á Akureyrarvöku en margir þeirra mættu með nestikörfu og góða skapið til að njóta samveru við nágranna sína í hverfislautarferð. Þessi nýi og vinalegi viðburður er kominn til að vera.  Fyrir utan ótal listviðburði og uppákomur um allan bæ vekur athygli hversu mikið hátíðin skilur eftir sig af skreytingum og útilistaverkum af ýmsum toga. Ástralski vegglistamaðurinn Guido van Helten vann alla helgina að því að mála stóra veggmynd á norðurgafl Amaróhússins við göngugötuna í miðbænum. Á myndinni er Sigríður Sigtryggsdóttir á ungaaldri að leika Dimmalimm hjá Leikfélagi Akureyrar. Sigríður lést árið 2010. Í Listagilinu skreyttu níu  listamenn hvern sinn hluta af vegg, handan götunnar við Ketilhúsið, og bak við veitingahúsið Rub 23. Áður en hátíðarhöldin hófust var listaverkið Sigling eftir Jón Gunnar Árnason fært úr miðbænum að nýjum göngustíg meðfram sjónum við Drottningarbraut  og kallast þar skemmtilega á við hið fræga verk Sólfar eftir sama höfund við Sæbraut í Reykjavík.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan