Auglýst eftir framkvæmdastjóra Menningarfélags Akureyrar

Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Samkomulag um stofnun Menningarfélags Akureyrar var undirritað þann 17. júlí síðastliðinn en samkomulagið felur í sér samrekstur Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands (LA, MH og SN) undir hatti Menningarfélags Akureyrar (MAk).

Frá undirritun samkomulagsins hefur stjórn Menningarfélagsins unnið að undirbúningi samrekstrarins og mun félagið taka formlega við rekstri LA, SN og Hofs 1. janúar 2015. Fram að áramótum verður að venju lifandi og fjölbreytt starfsemi hjá stofnfélögunum þremur. Starfsemi á vegum Leikfélags Akureyrar verður þó með breyttum áherslum fram að áramótum, en áhersla verður nú lögð á undirbúning næsta árs. Leiklistarskólinn verður rekinn áfram af fullum krafti ásamt því sem tekið verður á móti gestasýningum í Samkomuhúsinu og Rýminu.

Framundan er mikil vinna við samræmingu og undirbúning og er eitt mikilvægasta skrefið í því að ráða framkvæmdastjóra félagsins. Nú í vikunni verður auglýst eftir framkvæmdastjóra Menningarfélags Akureyrar og verður umsóknarfrestur til 29. september næstkomandi. Vonir standa til að nýr framkvæmdastjóri geti hafið störf sem allra fyrst. Í kjölfar ráðningar framkvæmdastjóra verður auglýst eftir sviðsstjórum kjarnasviðanna þriggja, þ.e. leiklistarsviðs, tónlistarsviðs og viðburðasviðs, auk þess sem auglýst verður eftir öðru starfsfólki en stefnt er að því að ráða í þau störf frá 1. janúar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan