Akureyrarvaka um helgina

Glaðir gestir í karnivalinu á síðustu Akureyrarvöku. Mynd: Daníel Starrason.
Glaðir gestir í karnivalinu á síðustu Akureyrarvöku. Mynd: Daníel Starrason.

AmabAdamA í Listagilinu & annarlegar verur í Innbænum, ljóð & lautarferð, myndlist & markaður, tweed ride & tónlist, bíó & blót, leiklist & listaverk, rökkuró og rokk, friðarvaka & flottar freistingar. Þetta er bara brot af þeim 100 kræsingum sem verða á veisluborðinu í tilefni af 152 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar á Akureyrarvöku um næstu helgi. Þema vökunnar er ,,Al-menning fyrir almenning" og bæjarbúar og gestir þeirra njóta og taka þátt í því sem borið er á borð.

Akureyrarvaka hefst föstudagskvöldið 29. ágúst í Lystigarðinum með dagskránni Rökkurró. Þar mun rómantíkin ráða ríkjum og falleg birta umlykja gesti ásamt ljúfum tónum og seiðandi dansi. Sungið verður með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi og Draugavakan verður á sínum stað í Innbænum. Rokktónleikar verða í portinu hjá Backpackers þar sem akureyrsk bönd halda upp stemningunni. Óður til the Doors og nýjar þýðingar á textum Jim Morrisons hljóma úr hljóðgarði Þorgils Gíslasonar úr gámum í Skipagötunni.

Á laugardagsmorgun 30. ágúst  eru bæjarbúar hvattir til þátttöku í lautarferðum í öllum hverfum bæjarins. Þar láta hverfisráðin til sín taka og áhugasamir einstaklingar í hverju hverfi sem vilja leggja hönd á plóg til þess að ýta undir samkennd granna á milli. Súlutindur og stofutónleikar eru viðburðir sem vert er að nefna en þegar líður á daginn færist þungamiðjan í miðbæinn þar sem boðið er upp á fjölbreytta dagskrá sem líkja má við smákökur og hnallþórur á girnilegu hlaðborði í tilefni veislunnar. Vísindamenn bregða á leik, veggverk sem minna á frið og jafnrétti líta dagsins ljós, tónlist ómar af svölum og þökum og af torgi og götum. Listagilið iðar af lífi, göngugatan og Ráðhústorgið breytast í leikmynd fyrir viðburði af ýmsu tagi sem heilla unga sem aldna og fá þá til að taka þátt og njóta.

Stærsta hnallþóran er í þremur lögum með mjúku kremi: Hin akureyrska hljómsveit Mafama hefur leikinn í Karnivalinu í Gilinu og tónlistarfólk frá Akureyri tekur við af henni og flytur tónlist úr kvikmyndinni The Blues Brothers. Loks tekur AmabAdamA við og þegar þau hafa tryllt liðið og dansinn hefur dunað í um tvær klukkustundir tekur fegurðin við. Tónverkið Spiegel Im Spiegel eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt mun óma í Listagilinu, bæjarbúar kveikja á kertum og raða þeim upp kirkjutröppurnar með aðstoð hjálparsveitarmanna.

Bæjarhátíð á norðurhveli jarðar getur gert heiminn örlítið betri en hann er í dag. Hér er aðeins tæpt á nokkrum brotum úr dagskránni en hana má sjá í heild sinni á visitakureyri.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan