Akureyrarvaka hefst í dag

Friðarvaka 2014
Friðarvaka 2014

Akureyrarvaka,afmælishátíð Akureyrarbæjar fer fram 28.-29. ágúst og er þemað að þessu sinni dóttir –mamma-amma en það er tilvísun til þeirra kvenna sem hafa lagt sitt af mörkum til menningarlífs bæjarins auk þess sem 100 ára kosningaafmælis kvenna er fagnað í ár.

Hátíðin hefst föstudagskvöld með setningu í Lystigarðinum þar sem rómantíkin ræður ríkjum með suðrænum ljóðadjass og Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri ásamt Samúel J. Samúelssyni. Eftir rómantíkina tekur við Draugaslóð í Innbænum þar sem verur af öðrum heimi yfirtaka þennan elsta hluta bæjarins. Þeir sem taka ekki sénsinn á draugunum geta skellt sér á Porttónleika í miðbænum eða sing-a long tónleika í Hofi með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Á laugardag er upplagt að hefja daginn með heimsókn í Grasrót-Iðngarða sem er í gamla Slippnum og leggja svo leið sína í miðbæinn og Listagilið. Það verður dagskrá á Ráðhústorgi frá kl. 13 með danskennslu, gjörningi, barrokktónleikum, ljósmyndasýningu og fl. og í Listagilinu verður opnun sýninga, Dj,heil vegglengja verður máluð út frá þemanu dóttir-mamma-amma og fl.  Í Rósenborg taka vísindin yfir í Vísindasetrinu með allskonar tilraunum, sprengjum, slími,sjálflýsandi örverum, heimsspeki, ísgöngum og fleiru uppátækjasömu. 

Listamaðurinn Guido heimsækir Akureyrarvöku í annað sinn en hann málaði í DIMMALIMM á vegg Amaróhússins. Að þessu sinni ætlar hann að mála á ferjuna Sæfara sem leggst við Torfunefsbryggju á föstudagskvöld og mun Selina Miles heimildakvikmyndagerðarkona taka upp gjörninginn.

Á laugardagskvöld verða stórtónleikar neðst í Listagilinu kl. 21-23 þar sem hin 75 ára Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri undir stjórn Alberto Porro Carmona spilar og er Samúel J. Samúelsson gestastjórnandi.  Fram koma Jónas Sig, Lay Low og hljómsveit, stúlknakór og eldri barnakór Akureyrarkirkju og söngkonurnar Hafdís Þorbjörnsdóttir og Brynja Elín Birkisdóttir og verður tónleikunum útvarpað á Rás 2.

Strax að loknum tónleikum verður Friðarvaka þar sem kastljósinu er beint að vandamálinu sem kynferðislegt ofbeldi er í þjóðfélaginu og þeirri staðreynd að byltingin hefst hjá okkur sjálfum. Seld verða kerti alla Akureyrarvöku á 500 kr. sem eru til styrktar Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi og verður kertunum raðað upp kirkjutröppurnar undir stjórn Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri og sjálfboðaliðum frá nokkrum kvennasamtökum.  Á meðan syngur kammerkórinn Hymnodia undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar. Kveikt er á kertum fyrir friði í heimilinum og friði í heiminum.

Þetta er aðeins brotabrot af dagskrá Akureyrarvöku en hana má einnig finna  áwww.visitakureyri.is og á Facebook.com/akureyrarvaka.

Helstu máttarstólpar Akureyrarvöku eru Samskip, Exton, Landsbankinn, Menningarráð Eyþings, Flugfélag íslands, Tónlistarskólinn á Akureyri, Norðurorka, verkfræðistofan Efla, Háskólinn á Akureyri, Gula villan, Apotek Guesthouse, Húsasmiðjan, Íslandsbanki, RUB23, Hótel Kea, Bautinn, Strikið, T-bone Steakhouse og Kung Fu Express, IceWear og fl.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan