Akureyrarbær sækir um aðild að Norðurslóðaneti Íslands

Samþykkt var á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær, fimmtudaginn 21. maí, að Akureyrarbær sæki um aðild að Norðurslóðaneti Íslands. Fulltrúar bæjarins hafa sótt fundi og verið í samstarfi við Norðurslóðanetið en talið er mikilvægt fyrir Akureyrarbæ að sækja um formlega aðild.

Akureyri hefur markað sér sess sem miðstöð norðurslóðastarfs á Íslandi og þar eru starfandi fjölmargir aðilar sem sinna rannsóknum og viðskiptum á norðurslóðum. Akureyrarbær hefur verið aðili að samtökunum Northern Forum frá árinu 2003, eitt íslenskra sveitarfélaga.

Það er mat sérstaks vinnuhóps um erlend samskipti sem starfað hefur á vegum bæjaryfirvalda, að með því að ganga í Norðurslóðanetið geti Akureyrarbær lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að Akureyri styrkist enn frekar sem miðstöð norðurslóðastarfs á Íslandi.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan