Gæðakonur 14. nóvember kl. 12:00

Steinunn Sigurðardóttir
Steinunn Sigurðardóttir

Steinunn Sigurðardóttir kemur og kynnir nýja skáldsögu sína föstudaginn 14. nóvember kl. 12:00

GÆÐAKONUR

María Hólm Magnadóttir, alþjóðlega virtur eldfjallafræðingur, er söguhetja í Gæðakonum, skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur sem Bjartur gefur út. 

Eftir margvíslegan missi og áföll í lífinu er svo komið að eldfjöllin eru Maríu Hólm allt.  En í flugi til Parísar áleiðis í enn eina vinnuferðina veitir stórfögur kona að nafni Gemma henni sérstaka athygli - sem María ákveður að svara ekki.  Gemma drekkur kaffið morguninn eftir á sama stað í París og María Hólm.  Hún tælir Maríu Hólm til framandi ferðlags, sem leiðir af sér stríðan og ófyrirsjáanlegan straum ástar og atburða - sem stofnar sambandi hennar við eldfjöllin í verulega hættu.

Í káputexta segir:  “Í skáldsögunni Gæðakonur kemur Steinunn Sigurðardóttir að lesandanum úr óvæntri átt.  Hún sýnir hér allar sínar bestu hliðar:  ískrandi kaldhæðni, flugbeittur stíll, leiftrandi húmor og einstök innsýn í heim alls kyns ásta og erótíkur.”

Eldjfallafræðingurinn María Hólm og byltingarkonan Gemma eru nýjustu kvenhetjur í skáldsögu eftir Steinunni Sigurðardóttur, en áður urðu til, svo einhverjar séu nefndar:  Alda í Tímaþjófnum, Harpa Eir í Hjartastað, Samantha í Ástinni fiskanna, Beatrís í Jöklaleikhúsinu, Lilla í Sólskinshesti og Doreen Ash í Góða elskhuganum. 

Gæðakonur er tólfta skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur.  Bjartur gaf þar áður út skáldsögurnar Jójó og Fyrir Lísu, þar sem segir frá geislalækninum Martin Montag og heimilislausa vini hans, Martin Martinetti og leyndarmáli lífsreynslu sem þeir eiga sameiginlega.  Jójó var fádæma vel tekið á Íslandi, og hlaut meðal annars verðlaun íslenskra bóksala.  Sagan er komin út á frönsku og þýsku, og er væntanleg á ensku innan tíðar.  Franska blaðið Le Point skrifaði um Jójó að hún væri “sannkölluð kraftaverkabók og áhrifaríkari en flestar aðrar skáldsögur.”

Steinunn Sigurðardóttir hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 1996, fyrir skáldsöguna Hjartastaður, sem fjallar um leiðangur móðurinnar Hörpu til að bjarga unglingsdóttur sinni, Eddu, úr heljargreipum fíkniefna og hættulegra félaga.

Ritmennskuferill Steinunnar Sigurðardóttur er langur og fjölbreyttur.  Nú í haust eru 45 ár frá því að fyrsta bók hennar, ljóðabókin Sífellur, kom út.  Tímaþjófurinn, fyrsta skáldsaga Steinunnar, sem kom út 1986, vakti sérstaka athygli, og mun vera sú íslensk skáldsaga síðustu áratuga sem mesta umfjöllun hefur hlotið.  Árið 2012 kom út hjá Háskólaútgáfunni bók Öldu Valdimarsdóttur og Guðna Elíssonar um ljóð og skáldsögur Steinunnar, sem ber heitið:  Hef ég verið hér áður?  

Tímaþjófurinn kom út víða í Evrópu við mjög góðar undirtektir.  Sagan var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í Frakklandi varð kvikmynd úr Tímaþjófnum með frönskum stjörnuleikurum, þar á meðal Emmanuelle Béart og Sandrine Bonnaire.

Steinunn Sigurðardóttir heldur áfram að skrifa jöfnum höndum ljóð og skáldsögur.  Síðasta ljóðabók hennar, Ástarljóð af landi, var þýdd á frönsku, þýsku og dönsku.  Árið 2003 kom út ljóðasafn hennar:  Frá Sífellum til Hugásta. 

Steinunn Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Reykjavík, og Reykjavík er sögusvið flestra skáldsagna hennar.  Steinunn lauk háskólaprófi í sálarfræði og heimspeki í Dyflinni.  Hún starfaði sem fréttamaður útvarps og blaðamaður framan af, meðfram ritstörfum. Hún vann einnig við gerð menningarefnis fyrir sjónvarp og gerði viðtalsþætti um rithöfunda, þar á meðal Halldór Laxness, Svövu Jakobsdóttur, Iris Murdoch og Guðberg Bergsson. Steinunn hefur dvalið langdvölum í nokkrum Evrópulöndum, lengst af í Frakklandi og Þýskalandi, þar sem skáldsögur hennar hafa komið út jafnt og þétt undanfarna tvo áratugi. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan