Eitt sinn skáti - ávallt skáti

Við göngum svo léttir í lundu...
Við göngum svo léttir í lundu...

Í tengslum við Landsmót skáta sem haldið verður að Hömrum dagana 20.-27. júlí 2014 hefur verið sett upp sýning á munum tengdum skátastarfi á Akureyri.

Skátastarf á Akureyri hófst 1917 og hefur staðið með mismiklum blóma allt til dagsins í dag.

Skátasveit Akureyrar (síðar Skátafélag Akureyrar) var stofnuð 22. maí 1917. Kvenskátafélagið Valkyrjan, Akureyri var stofnað 2. apríl 1923. Skátafélagið Klakkur var stofnað 22. febrúar 1987 með sameiningu Kvenskátafélagsins Valkyrjunnar og Skátafélags Akureyrar. Á Akureyri eru starfandi tvö St. Georgsgildi, sem eru félög eldri skáta. Auk þess starfaði Hjálparsveit skáta hér frá árinu 1971 þar til hún sameinaðist öðrum björgunarsveitum á Akureyri undir nafninu Súlur.

Eldri skátar á Akureyri hafa unnið að söfnun muna sem hér eru til sýnis og kennir ýmissa grasa.

Skátastarfið hefur breyst talsvert í tímans rás og hér er áherslan á eldri skátabúninga og útilegudót.

Skátasýning

Það er von okkar að sem flestir bæjarbúar og gamlir skátar heimsæki sýninguna og njóti þess að rifja upp gamla, góða daga.

Hér má skoða myndir af sýningunni : https://www.flickr.com/photos/amtsbokasafn/sets/72157645053650439/

Margir lögðu til efni en þau sem unnu að uppsetningu sýningarinnar voru Fjóla Hermannsdóttir, Kristbjörg Rúna Ólafsdóttir, Guðný Stefánsdóttir, Pétur Torfason og Stefán Árnason í samstarfi við sýningarstjóra Amtsbókasafnsins, Nönnu Lind.

 Verðlaunagripur

Eins og áður segir verður landsmót skáta haldið að Hömrum við Akureyri dagana 20.-27. júlí 2014. Landsmót skáta eru stórkostleg upplifun fyrir alla þá sem taka þátt og nú hefur þú tækifæri til þess að koma og vera með!

Skátahreyfingin er alþjóðleg hreyfing barna og unglinga. Alþjóðastarf er því eðlilega mjög mikilvægt í allri okkar starfssemi. Eitt af meginmarkmiðum BÍS er að gefa skátum kost á þátttöku í alþjóðlegu skátastarfi. Landfræðilegar aðstæður hefta augljóslega möguleika allt of margra íslenskra skáta til heimsókna og persónulegra kynna skátasystkina sinna erlendis og því er alþjóðlegt landsmót kærkomið tækifæri fyrir okkur.

Tækifæri til að bjóða til okkar skátum hvaðanæva að úr heiminum, skapa aðstæður fyrir gagnvirk kynni af menningu og viðhorfum hvors annars, læra hvert af öðru, efla bræðralag og skilning okkar á milli, án þess að þurfa að yfirgefa heimalandið.

Það er alla vega staðreynd að eitt það eftirminnilegasta sem íslenskir skátar hafa frá landsmótum okkar eru kynni við erlend skátasystkini á mótinu að þeirra eigin sögn.​

Heimasíða www.skatamot.is

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan